ZOOM
20.1 – 25.2 2018Gallerí Úthverfa, Ísafjörður, Iceland
Sýningin ZOOM er unnin út frá ljósmyndum sem Auður fann á filmum sem ókunnugt fólk hafði tekið en ekki framkallað, hafði gleymt því að filmurnar voru í vélunum sem síðan enduðu á mörkuðum, hérlendis og erlendis. Auður hefur safnað slíkum filmum í nokkur ár en hún sýndi hluta af fundnu ljósmyndunum í Ljósmyndasafni Reykjavíkur 2017. Að þessu sinni nálgast hún myndirnar á annan hátt en áður. Ýmislegt kemur fram á þessum myndum og þá hefur Auður einna helst heillast af því hvernig fólk skreytir sig og sitt nærumhverfi, með smáhlutum, litasamsetningum, listaverkum, o.fl. Auður rannsakar í verkum sínum þörf fólks til þess að taka myndir af atburðum eða atburðaleysi. Hún veltir fyrir sér þörfinni til að skrásetja lífið með ljósmyndun, athöfninni sem felst í því að taka myndir og einnig gleymskunni sem fylgir því að framkalla þær ekki.
Algengastar eru ljósmyndir af hátíðarhöldum, landslagi og köttum, en síðan kemur að því að það þarf að klára filmuna á vélinni og er þá oft skotið af hvatvísi og samhengislaust. Stundum birtast ljósmyndir af listaverkum á fundnu filmunum. Þörf fyrir list er hversdagslegur hluti af lífinu og algeng listræn hegðun fólks er gjarnan ómeðvituð. Hugmyndin að enginn hefur séð myndirnar áður og að á filmunum gæti leynst dýrmætur fjársjóður vekur upp dularfulla eftirvæntingu listamannsins. Skyggnst er inn í persónulegt umhverfi ókunnugra á sýningu Auðar, Zoom. Þar ‘zoomar’ hún inn á viss smáatriði í þessum fundnu myndum og gerir úr þeim ný verk, sem verða ópersónuleg að öllu leyti og grunsamlega venjuleg.